Uppskrift frá Helga

Hugmynd

Eftir að frúin kom heim frá Hollandi með La Trappe gjafaöskju fylgdi bjórsmakk í kjölfarið á Trappist bjórum. Niðurstaðan var sú að ég þyrfti að brugga Dubbel. Þar sem La Trappe Dubbel stóð uppi sem sigurvegari bjórsmakksins ákvað ég að reyna að herma eftir þeim eiginleikum hans sem okkur fannst standa upp úr.

Okkur þótti La Trappe Dubbel sætari en flestir aðrir Dubbel bjórar og minna beiskur. Þess vegna er meskihitastigið látið vera í hærra lagi og beiskjan höfð sem allra minnst. Einnig bætti ég steinefnum við vatnið til að draga maltkarakterinn aðeins betur fram úr korninu. Nafnið fær hann frá því að vera fyrsti dubbel Mánagötunnar (sem vitað er um).

Dubbelinn kominn í glas með þræl-þéttum haus

Tölur

 

Lítrar í gerjun 21 L
Áfengismagn 7,1 %
Heildarnýtni 75 %
Meskitími 60 mín
Suðutími 90 mín
IBU 16,4
OG 1.072
FG 1.018

Korn

Tegund Hlutfall
4,78 kg, Pilsner Malt (Castle Malting) 73,5 %
0,64 kg Wheat Malt (Weyermann) 9,8 %
0,32 kg CaraMunich 2 (Weyermann) 4,9 %
0,32 kg Special B (Castle Malting) 4,9 %
0,45 kg Candi Sugar 180°L (notað í suðu) 6,9%

Belgíska Pilsner maltið og Special B maltið fæst í Vínkjallaranum. Candi Sýrópið fæst hjá Brew.is

Humlar

Tegund Magn IBU
60 mín Celeia (4,5% AA) 23 gr 11,2
30 mín Saaz (4,8% AA) 13 gr 5,2

Ger

2 pakkar af Wyeast 1214 Belgian Abbey blautger

Aðferð

Kornið er meskjað við 69-70°C í 60 mín. Síðan er tekið Mash-out við 77°C í 10 mín (ef þú vilt).

Soðið er í 90 mínútur og Candi sýrópinu er bætt við þegar 10 mínútur eru eftir af suðunni. Gott er að draga upp um það bil hálfan lítra af virti úr suðunni og blanda saman við sýrópið í skál áður en því er síðan bætt aftur út í suðuna. Þetta er gert til þess að sýrópið leysist vel upp og leggist ekki beint á botninn (eða elementið og brenni) þegar því er bætt við.

Viðbætur við vatnið eru:

Gips (CaSO4) = 5 gr
Kalsíum Klóríð (CaCl2) = 7 gr
Matarsódi (NaHCO3) = 10 gr

Athugasemdir

Ef þú átt ekki steinefnin sem þarf er í fína lagi að sleppa öllum slíkum viðbótum við vatnið. Í næstu útgáfu að þessum bjór er planið að minnka matarsódann og setja frekar kalsíum-karbónat (CaCO3) í staðinn. Það er til að minnka hættuna á saltbragði (þegar Na og Cl koma saman). Þetta eru samt nördapervertískar pælingar sem mögulega geta verið gagnslausar.

Ekki vera hrædd/ur við að gera smávegilegar breytingar á uppskriftinni. T.d. ef þú vilt nota ljósara Candi sýróp eða vilt lýsa almennt upp á lit bjórsins.

Varðandi gertegund, þá varð Wyeast 1214 fyrir valinu vegna almennt góðra dóma í belgískum stílum (samkvæmt leit á google). Þar sem ég hafði enga reynslu af þeim gertegundum sem notaðar eru í belgíska Trappist bjóra ákvað ég að prófa þetta ger bara sem tilraun, og er mjög ánægður með útkomuna. Eflaust virka aðrar tegundir í þennan bjór (og hugsanlega betur, hver veit?).

Þetta er bjór sem fínt er að geyma í smá tíma. Það er líka hefðbundið að kolsýra þennan bjórstíl allsvakalega, eða í kringum 3 vol.

Þessi uppskrift var birt á vefsíðu Fágunar. Fylgdu linknum til að sjá umræðuna þar um þennan bjór.


Endilega skildu eftir spurningar og athugasemdir hér fyrir neðan. Láttu okkur svo vita hvernig þessi gekk hjá þér! (Við myndum jafnvel þiggja smakk)