Hugmynd

Planið er að gera mjög einfaldan mjöð fyrir byrjendur. Uppskriftin er hönnuð með aðeins 4 lítra í huga og því tilvalin sem lítið aukaverkefni fyrir bjórbruggara. Ef þú vilt gera meira magn er hægt að skala línulega upp.

Tölur

 
Lítrar í gerjun 4 L
Áfengismagn 12-15%
Suðutími 10 mín
OG 1.100-1.120
FG 1.010-1.025
 

Hráefni

Hunang
Þú þarft þrjár 450ml krukkur af hunangi eða 1,35 kg í heildina. Aðeins minna eða aðeins meira er í fína lagi en mundu að það hefur áhrif á Original Gravity og þar af leiðandi einnig á áfengismagn og sætustigið. Veldu hunang sem þér þykir gott á bragðið. Gæðahunang gerir gæðamjöð!

Ger
Einn pakki Nottingham ölger.

Gernæring
Hægt er að nota gernæringu fyrir bjór, t.d. Wyeast Yeast Nutrient. Annars er betra að nota Fermaid K (sem er sérhannað fyrir vín- og mjaðarger). Einnig er gott að útvega DAP (Di-Ammonium Phosphate) sem er næringarefni sem hunang inniheldur sáralítið af. 1/2 teskeið af hvoru fyrir sig í upphafi.

Aðferð

Hitaðu 1,5 lítra af vatni upp í suðu í 4 lítra potti (eða stærri) og haltu suðu í 10 mínútur til þess að sótthreinsa vatnið og pottinn. Á meðan er gott að láta heitt vatn renna á hunangskrukkurnar í vaskinum til þess að leysa betur upp hunangið. Taktu síðan pottinn af hitanum og blandaðu hunanginu við og hrærðu þar til allt hunangið er uppleyst í vatninu. Þú getur blandað næringarefnunum við vatnið á meðan þú sýður það eða á sama tíma og þú bætir hunanginu við. Þegar hunangið er uppleyst í vatninu er því komið fyrir í gerjunarílátinu (í mínu tilfelli 5 lítra glerkútur). Bættu við köldu vatni þar til þú hefur náð 4 lítrum í heildina, en passa að hafa um það bil 3cm loftrými í gerjunarílátinu. Kældu því næst hunangsblönduna þína niður í gerjunarhitastig (ca. 20°C) t.d. með ísbaði. Hristu ílátið vel til að koma súrefni í vökvann og bættu við geri. Leyfðu að gerjast í einn mánuð áður en þú setur á flöskur. Ef þú vilt fá mjöðinn tærari er gott að fleyta yfir í annað ílát og honum leyft að liggja þar í annan mánuð. Endurtaktu eins og oft þú vilt þar til þér þykir hann nægilega tær. Mjöður er venjulega ókolsýrður og borinn fram eins og vín.


Endilega skildu eftir spurningar og athugasemdir hér fyrir neðan. Láttu okkur svo vita hvernig þessi gekk hjá þér! (Við myndum jafnvel þiggja smakk)