Eitt af því sem vill fylgja því að gera heimagerðan bjór er að verða sér út um flöskur og þrífa miða af þeim. Og það af yfirleitt ansi mörgum flöskum!

Sumir nota vissulega einungis kúta eða sætta sig við merktar flöskur en flestir vilja þó nota ómerktar flöskur. Því er tilvalið að setja saman smá leiðbeiningar handa heimabruggurum um bæði val á flöskum og hvernig er best að losa miðana af þeim.

Flöskum líður hvað best í mildu sápubaði

Val á flöskum

Það fyrsta til að hafa í huga varðandi flöskur er efnisleg gerð þeirra. Vil ég gler, plast eða eitthvað annað?

Hér þarf að hafa í huga nokkur atriði:

Plastflöskur er auðvelt að skaffa og brotna ekki, en þær vernda illa gegn sólarljósi og plast rispast auðveldlega við þrif sem gefur misgóðum gerlum og bakteríum griðarstað. Auk þess er bjór í plastflöskum ekki sérlega sexý!

Þess vegna mælum við með glerflöskum.

Ef þú ert heimabruggari má gera ráð fyrir því að þú kaupir þér reglulega góðan bjór. Hann kemur venjulega í brúnum glerflöskum sem þola þrýstinginn vel og vernda gegn sólarljósi. Notaðu þessar flöskur!

Hér má sjá brúnar flöskur, besta vin bruggarans.

Sólarljós veldur því að efnið riboflavín (B2 vítamín) hvarfast við isohumolon og gera þau óvirk, en isohumolon eru „isomeraðar“ alfasýrur úr humlunum og er það sem veitir bjórnum beiskju. Niðurstaða hvarfsins er „3-methylbut-2-ene-1-thiol“, en það er thiol (súlfúrefnasamband) sem hefur ýmislegt sameiginlegt við lyktarefnin sem skúnkar nota sér til varnar.

Sem sagt: Ljós breytir humlalykt í skúnkalykt. Ekki gott!

Þetta er meðal annars ástæðan fyrir því að æskilegast er að drekka vel humlaða bjóra á borð við IPA eins ferska og hægt er, því jafnvel brúnar flöskur verja bjórinn ekki algerlega. Glærar og grænar flöskur verja bjórinn hinsvegar ekkert fyrir sólarljósinu.

Til vinstri má sjá mjóa flöskuhausinn sem er átöppunartækjum erfiður.

Annað sem þarf að hafa í huga eru hausarnir á flöskunum. Til eru nokkrar tegundir af flöskuhausum sem taka misvel á móti átöppunartækjum. Best er að prófa sjálfur hvort átöppunartækið þitt virkar á þær flöskur sem þú ætlar að nota fyrirfram. Þú vilt nefnilega ekki lenda í neyðarástandi á átöppunardegi. Önnur lausn í þessum málum er að útvega sér „swing-top“ flöskur, en þær eru nokkuð vinsælar meðal heimabruggara. Þá má annaðhvort sanka að sér Grolsch flöskum eða strunsa við í Brew.is og kaupa nokkrar nýjar. Það er líka hægt að auglýsa eftir flöskum á Heimabruggaragrúppunni á Facebook.

Ef þú ert í vandræðum með að safna nógu mikið af flöskum undir fyrstu lögnina reyndist mér til dæmis vel að herja á stórafmæli, útskriftir og fleiri veislur þar sem boðið var upp á bjóra í brúnum glerflöskum. 

Miðaþrif

Annar hausverkur við flöskurnar er hvernig maður getur losað sig við merkimiðana utan á þeim. Sum brugghús virðast keppast um það að nota harðgerasta límið og valda manni löngum táraríkum kvöldum. Til að þrífa miðana af höfum við lært nokkrar lykilaðferðir sem virka á flestar flöskur.

Flöskurnar frá Borg eru oft taldar erfiðastar í miðahreinsun...

Hér er listi yfir þær flöskur sem við höfum reynslu af miðaþrifum með. Tökum einnig fram týpuna á hausnum á flöskunum og litinn á glerinu.

...en í raun eru þær mjög þægilegar!

Að okkar mati henta Gæðings-flöskurnar best. Þær eru með stóran haus sem er auðvelt að koma tappa á. Þær eru brúnar og miðinn rennur af undir volgri bunu og skilur ekkert lím eftir. Ekki sakar að bjórinn frá Gæðingi er yfirleitt góður. Kaldi kemur svo sterkur inn í annað sætið og jafnvel Borg þar á eftir ef maður á pláss í ofninum sínum.

Ef þú veist hvernig á að þrífa miða af flöskum sem vantar á þennan lista máttu endilega koma því á framfæri hér að neðan.