Hugmynd

Hugmyndin er einfaldlega sú að vernda meskipokann frá hitaelementum. Þetta á sérstaklega við þegar hitastýring er notuð í meskingu, svo sem eins og PID stýring. Þá er reglulega kveikt á hitaelementinu til að viðhalda réttu hitastigi í meskingu. Falskur botn er líka mjög þægileg lausn fyrir þá sem eru ekki með hitastýringu, en vilja geta hækkað hitann í meskingu. T.d. ef meskihitinn hefur lækkað of mikið á of stuttum tíma, eða þegar tekið er mashout við lok meskingar.

Ég vildi finna ódýra og auðvelda leið til að smíða falskan botn sjálfur. Ég er ekki með neina sérstaka aðstöðu (er ekki blikksmiður, vinn ekki á verkstæði með aðgang að milljón verkfærum) og ég ímynda mér að flestir séu í sömu stöðu og ég. Þetta ættirðu því að geta auðveldlega gert sjálf/ur og líklega gert mun flottari og betri botn. En vonandi gefur þér þetta hugmynd um eina leið sem hægt er að fara í þessum efnum.

Íhlutir

Pizzabotn, maskínuskrúf-bútar, skinnur, boltar og hettur
Aðeins snyrtilegra.

Samsetning

Þar sem ég fann engar maskínuskrúfur í þeirri hæð og breidd sem hentaði mér þurfti ég að kaupa langan skrúf-bút (snitti) og saga hann til. Þess vegna var það fyrsta sem ég þurfti að gera að ákveða hversu margar fætur ættu að vera á falska botnum mínum. Eins og sést á myndunum ákvað ég að hafa 6 fætur. Því fleiri fætur → því sterkari verður falski botninn og því betra jafnvægi hefur hann.

Þegar ég var búinn að saga skrúfbútinn minn í 6 stykki í þeirri lengd sem ég vildi hafa þurfti ég að pússa endana örlítið með þjöl til að hægt sé að skrúfa upp á þá. Síðan er þetta bara einföld samsetning. Tekur í mesta lagi 5 mínútur að púsla saman og voila þú ert með falskan botn!

falskur botn tilbúinn
Hettur á báðum endum sjá til þess að rispa sem minnst og rífa ekki í pokann.
falskur botn tilbúinn
Ég ákvað að hafa fæturna eins utarlega og hægt er til að nýta styrk ytra hringsins

Þetta var sem sagt fyrsta útgáfa hjá mér. Eins og með margt, ef ekki bara allt í þessu brugghobbýi, þá nær maður aldrei endastöð í neinu. Maður er sífellt að þróa áfram græjur, breyta og bæta við. Þessi falski botn sem sést fyrir ofan þjónaði meistara sínum (mér) vel í marga mánuði, þangað til ég ákvað að setja meira en 10 kg af korni í pokann minn. Þá fótbrotnaði hann á tveimur stöðum og netið slitnaði á þeim stöðum. Þess vegna ákvað ég að búa til nýjan flaskan botn sem í þetta sinn myndi ná alveg út þvermálið á pottinum mínum, sem er ekki eins auðvelt og það hljómar því opið á pottinum mínum er í rauninni minna en sjálft þvermálið á innri pottnum.

minna op
Passar akkúrat í opið...
pottur stærri
...en nær ekki út allt þvermálið í innra pottinum. En hann gerir það sem hann á að gera: vernda pokann frá elementinu.

Ég ákvað því að kaupa mér pizzabotn sem nær yfir allt þvermálið í innra pottinum. Svo klippti ég það í tvennt, skellti lömum á það og endurnýtti fæturna úr gamla litla botninum. Þannig get ég komið þessum nýja fyrir í innri pottinum þó svo að opið sé minna en sjálfur botninn.

nýji botninn 1
Þrjár lamir halda honum saman og leyfa mér að brjóta hann saman svo hann komist í gegnum opið.
nýji botninn 2
Hann er aðeins með 6 fætur eins og er, en planið er að setja fleiri fætur.

nyr botn 1

nyr botn 2

nyr botn 3

Þessi nýji botn hefur virkað mjög vel í ca. 5 brugganir (allar með ca. 5 kg korn). Planið er hins vegar að styrkja hann með fleiri fótum og finna einhverja sniðuga lausn við að koma honum upp úr eftir meskingna. Undanfarið hef ég bara veitt hann upp úr með meskisleifinni minni, en það er kjánalegt og klunnalegt ferli. Sniðug lausn sem Eyvindur félagi minn stakk upp á er að láta spotta standa upp úr, og draga hann einfaldlega upp.

Vonandi veitir þetta smá innblástur fyrir þá sem eru í vandræðum með meskipokann sinn og langar í falskan botn. Þeir þurfa ekki að vera dýrir eða rosalega flóknir, bara svo lengi sem þeir virka. Svona pizzabotns-falskur-botn er að kosta í kringum 3þús kr með öllu tilheyrandi. Þannig að þetta er klárlega með ódýrustu leiðum sem þú getur farið. Ef þú veist um eitthvað annað en pizzabotn sem fólk gæti notað máttu endilega láta vita með kommenti. 


Ertu með spurningu, athugasemd eða eitthvað sem þú vilt koma á framfæri varðandi greinina? Endilega skildu eftir skilaboð hér að neðan!