Það er erfitt að mæla áfengismagn á brugginu þínu fullkomlega en það má nálgast það best með mælingu eðlisþyngdar fyrir og eftir gerjun. Gildir það sama um allt létt áfengi; bjór, mjöð, vín, cider o.þ.h
Eðlisþyngdarbreyting fyrir og eftir gerjun endurspeglar nokkurn veginn breytingu sykurs yfir í áfengi í bjórnum (eða hverju sem þú ert að búa til). Það má svo nota eftirfarandi formúlu til að áætla áfengismagn út frá eðlisþyngd fyrir (OG) og eftir (FG) gerjun:
ABV = (OG – FG) * 131,25
Sem gefur þér áfengismagn sem prósentu af rúmmáli.
T.d. ef ég hef fengið Original Gravity = 1.050 og Final Gravity = 1.010 fæst:
ABV = (1,050 – 1,010)*131,25 = 0,040*131,25 = 5,25%
Ef þú vilt spara þér tíma við að reikna út þessa tölu í höndunum geturðu nýtt þér reiknivélina okkar!
Hvernig þú mælir eðlisþyngd
Til að útskýra betur hvernig allt þetta virkar skulum við skilgreina nokkra hluti:
- Það eru til nokkrir kvarðar sem meta eðlisþyngd og í brugginu eru þeir helstu Specific Gravity (SG), Plato og Brix. Hérna á Klakanum nota flestir SG. Specific Gravity gefur þér í raun ekki eðlisþyngdina á vökvanum beint, heldur gefur það þér eðlisþyngdina á vökvanum miðað við eðlisþyngdina á vatni. Þess vegna munum við hér eftir tala um hlutfallslega eðlisþyngd til að merkja Specific Gravity.
- Hlutfallslega eðlisþyngdin sem þú mælir áður en gerjun hefst kallast Original Gravity (OG).
- Hlutfallslega eðlisþyngdin sem þú mælir eftir að gerjun er lokið kallast Final Gravity (FG).
- Hlufallslega eðlisþyngd má mæla beint með flotvog eða óbeint með ljósbrotsmæli.
Til þess að mæla hlutfallslega eðlisþyngd með flotvog (e. hydrometer) læturðu hana einfaldlega fljóta í virtinum þínum (fyrir gerjun) eða í bjórnum þínum (eftir gerjun). Hér er mjög gott að eiga mæliglas til þess að hætta ekki á að sýkja bjórinn. Þú lest svo á kvarðann á flotvoginni þar sem hún snertir yfirborð vökvans. Í litlu mæliglasi þar sem yfirborð vökvans hverfist er réttasta mælingin lægsta yfirborðið (rauð lína á mynd).
Við mælum með því að taka frekar sýni sem notað er til mælinga heldur en að einfaldlega setja flotvogina beint út í gerjunarílátið. Í fyrsta lagi ertu að hætta á að sýkja bjórinn þinn með því að koma með aðskotahlut ofan í hann. Í öðru lagi er mun auðveldara að lesa á flotvogina þegar þú notar mæliglas. Í þriðja lagi færðu að taka langmikilvægustu mælinguna: þú færð að smakka bjórinn!
ATH: Aldrei hella sýni sem þú hefur tekið úr gerjunarílátinu aftur ofan í gerjunarílátið!
Vegna þess að mæling með flotvoginni skekkist eftir hitastigi, og reyndar þrýstingi líka (flotvogin er kvörðuð við ákveðið hitastig og þrýsting), er góð venja að mæla hitastigið á sama tíma og hlutfallsleg eðlisþyngd er mæld. Á netinu eru svo til fjölmargar reiknivélar sem gefa þér leiðréttingu á mælingunni miðað við hitastig (t.d. þessi hér eða okkar reiknivél!). Almennt eru þó mælar kvarðaðir við stofuhita og best er að mæla við þann hita.
Ljósbrotsmælir (e. refractometer) áætlar hlutfallslega eðlisþyngd út frá mælingu á ljósbroti í gegnum virtinn. Hægt er að mæla þetta beint fyrir gerjun en eftir gerjun þarf að gera ráð fyrir áhrifum áfengisins og reikna út eiginlegt FG. Má til dæmis nota þessa reiknivél hjá Brewer's Friend. Ljósbrotsmælar mæla oftast Brix en það er hægt að fá þá sem sýna SG kvarða samhliða eða í staðinn. Mælingin á ljósbrotsmælinum er líka háð hitastigi og því er nauðsynlegt að kæla sýnið niður að herbergishita áður en maður skvettir því á mæliglerið og glápir í gegn.
ATH: Til að vera viss um að gerjun sé lokið þarftu að mæla hlutfallslegu eðlisþyngdina að minnsta kosti tvisvar sinnum með 1-2 daga millibili. Ef þú færð sömu tölu í bæði skiptin er gerjun að öllum líkindum lokið. Ef talan sem þú færð er hins vegar óeðlilega há getur eitthvað hafa farið úrskeiðis. Gefðu gerinu hins vegar nægan tíma til þess að klára gerjun, að minnsta kosti tvær vikur í flestum tilfellum.
Nánar um eðlisþyngd, sykurmagn og áfengismagn
Vert er þá að huga að því að flotvog mælir einungis hlutfallslega eðlisþyngd og er engan vegin nákvæm leið til að reikna út sykurmagn í vökva. Þess vegna sker svolítið í eyrun á okkur snobburunum þegar flotvogir eru kallaðar sykurmælar. Þessi leið er þó nægilega nákvæm til áætlunar á áfengismagni fyrir daglega notkun. Flotvogin mælir þó heldur ekki áfengismagn í vökva. Enn og aftur: Flotvogin mælir einungis hlutfallslega eðlisþyngd (og ekkert annað!).
Til þess að skilja betur hvernig við áætlum áfengismagn út frá hlutfallslegri eðlisþyngd er hægt að einfalda og hugsa þetta á eftirfarandi hátt. Hugsum eingöngu um þrjá hluti: vatn, sykur og áfengi. Sýnið sem þú mælir fyrir gerjun inniheldur þá einungis sykur sem er uppleystur í vatni. Sykur er eðlisþyngri en vatn og því færðu mælingu sem er hærri en 1.000 (SG). Gerið breytir síðan sykrinum yfir í áfengi og kolsýru. Áfengi er með minni eðlisþyngd heldur en vatn. Þannig að ekki er aðeins sykurmagnið að minnka, og þar af leiðandi eðlisþyngdin, heldur er áfengismagn að aukast á sama tíma, og þar af leiðandi minnkar eðlisþyngdin ennþá meira.
Fyrir gerjun vorum við því með vatn (SG = 1.000) + sykur (SG > 1.000). Eftir að gerjun tekur af stað breytist dæmið yfir í vatn (SG = 1.000) + sykur (SG > 1.000) + áfengi (SG < 1.000). Með því að mæla hlutfallslegu eðlisþyngdina fáum við hinsvegar aðeins eina tölu sem stendur fyrir allt sem gæti verið í lausninni okkar. Og þar sem við sem heimabruggarar (og jafnvel þeir sem vinna í litlum brugghúsum) hafa enga leið til að vita nákvæmlega hvernig þessi tala er sett saman, verðum við að áætla áfengismagnið með formúlum.
Flestar formúlur vinna með þessar ofureinfölduðu forsendur og því gefur það auga leið að ekki er um mjög nákvæma niðurstöðu að ræða. En eins og gildir um svo margt í þessu hobbýi: RDWHAHB!
Heimildir og frekari lestur
Wikipedia - Gravity (alcoholic beverage)
Wikipedia - Alchohol by volume