Að demba sér ofan í nýtt áhugamál er ekki bara fáránlega gaman; það er ýkt keppnis snilld! Maður sóar heilu dögunum á internetinu yfir kennslumyndböndum, græjusíðum, bloggum og uppsker svo margfalt til baka í ánægju og (í tilfelli heimabruggs) bjór. Að læra að meta svo afmarkaðan hluta heimsins á nýjan máta gefur manni skemmtilega innsýn inn í hversu margt er til í þessu lífi. Ég ætla ekki að nota orðið gefandi, því það er hellað kjánó, en þetta er snilld. Brugg er samt ekki hvaða áhugamál sem er. Það er varla rétt að kalla þetta áhugamál, þar sem margir helga líf sitt brugglistinni og starfa við þetta göfuga sport.

Það besta við brugglistina er að hún er rosalega fjölbreytt. Bæði er hún einföld og aðgengileg fyrir byrjendur og býður jafnframt up á nær óendanlega möguleika til að betrumbæta stíl sinn og uppgötva nýja hluti.. Maður getur algerlega misst sig í ýmsum hlutum bruggsins; ferlinu sjálfu, hráefnunum, græjunum, aðstöðunni og svo framvegis eða þá að maður getur bara bruggað þann bjórstíl sem maður fílar best og haldið sig við hann. Svo er það líka pjúra ánægjan sem fylgir því að búa eitthvað til sjálfur. Orð fá því ekki lýst hvað það er gaman (og bragðgott). Allt þetta veldur því að sá hópur sem stundar heimabrugg er gífurlega fjölbreyttur og ætti hver sem er að geta fundið sér eitthvað sem heillar við verkið. Það elska jú allir bjór, er það ekki?

Áhugi minn á bjór byrjaði mjög snemma (ég ætla ekki að segja hversu gamall ég var ef mamma skyldi lesa þetta). Hann byrjaði þegar ég uppgötvaði gæðamuninn á þeim bjór sem var til í ríkinu heima og þeim sem ég hafði fengið beint af ámunum í smábrugghúsi í Þýskalandi. Fyrir áhugasama var það brugghúsið Kärrners í bænum Bad Orb, en mun ég vera svo lánsamur að geta sagt það fyrsta bjór sem ég smakkaði. Ég fattaði því fljótt að bjór er ekki það sama og bjór. Það var þó ekki fyrr en mun seinna að augu mín opnuðust í raun og veru og hef ég félaga mínum Helga það að þakka. Hann byrjaði á heimabruggsstússi fyrir einhverjum fimm árum tæpum og það var viðbjóðslegi viðbrenndi India Pale Ale-inn hans sem kom mér á bragðið.

Síðan þá hefur smekkur minn þróast á sama tíma og bjórmenning Íslands hefur tekið dásamlegum stakkaskiptum; örbrugghúsum fjölgað, úrval innfluttra gæðabjóra margfaldast og heimabruggið hans Helga loksins orðið drykkjarhæft. Það var því ekki annað hægt en að ég læti slag standa og myndi demba mér inn í heim heimabruggarans.

En svo er eitt að láta sér detta þetta í hug, en annað að hrinda þessu í framkvæmd. Hvað þarf maður eiginlega til að byrja að brugga og hvar finnur maður þær græjur? Hvaða bjórtegund á maður að byrja á? Ég var svo heppinn að eiga reyndan mann í þessum bransa fyrir vin en það gæti vel verið að þú standir hér einn og yfirgefinn. En örvæntið eigi! Því, sjá, ég boða ykkur mikinn fögnuð: Ég er nefnilega að skrifa þessa grein til að sýna þér hvernig er hægt að brugga bjór. Ekki láta komandi fræðiheitaflóð taka ykkur á taugum; ég mun útskýra það aðeins síðar því fyrst spáum við bara í græjunum!

 

Græjurnar

Uppgefin verð eru miðuð við það sem ég keypti

Hér fyrir ofan má sjá dæmi um þokkalega einfaldan innkaupalista. Maður kemst upp með minna, en upp á þægindin og góða endingu ákvað ég að fara þessa leið. Inn í þetta vantar flöskur og að sjálfsögðu hráefnin, en flöskunum sankar maður að sér smám saman og hráefnin fer ég út í síðar. Við listann mætti líka bæta við SCR kraftstilli (Brew.is) ásamt fleiri snúrum, rafmagnstengi, plastboxi (Byko / Íhlutir) og fleiru sem ég keypti til að búa til krafstýriboxið, en þar sem það var sett saman meira upp á gamanið heldur en þörfina þá sleppti ég því úr jöfnunni.

Meskingar- og/eða suðuílát

Það fyrsta sem þú þarft að hugsa um er meskingar- og suðuílát. Við venjulegar aðstæður þarf maður að meskja í einu íláti og færa svo afraksturinn yfir í annað ílát; fyrst og fremst til að losna við kornið og hámarka árangur meskingarinnar. Það vesen má einfalda með hinni sívinsælu „brew in a bag“ aðferð, eða pokabruggun. Þannig hefur maður gisjóttan poka í pottinum sem hleypir sykrunum og öðru gómsæti úr korninu en gerir okkur jafnframt kleyft að ná öllu korninu úr með pokanum. Þessari aðferð mæli ég hiklaust með sem bestu „all grain“ bruggaðferðinni fyrir byrjendur. Ef þið ætlið ykkur að brugga úr „extract“ sleppið þið í raun meskingunni en mynduð samt þurfa alveg eins ílát og pokabruggarar fyrir suðuna.

Um meskingar- og suðuílátið þarf að gilda þrennt: Það þolir hita, það sest ekki í það illþrífanlegur skítur og það er nógu stórt fyrir bruggáform þín. Ég valdi 40 lítrar ryðfrían stálpott sem ég keypti á rúmar 20.000 krónur í Fastus. Ryðfrítt stál þolir hitan vel, það er auðvelt að þrífa það og 40 lítrar er meira en nóg fyrir það sem ég hugsa mér að brugga. Það er hægt að komast upp með minni potta, en ég myndi ekki fara lægra en 30 lítra (þ.e. fyrir 20 lítra lagnir). Einnig er hægt að kaupa hentuga ryðfría potta hjá Brew.is og víðar. Pottinn þarf svo að gata til að koma hitaelementinu og krananum fyrir, en Hrafnkell hjá Brew.is er fús til að hjálpa þér með það fyrir slikk. En ryðfrítt stál er ekki það eina sem bítur og margir byrja með plasttunnum af ýmsum stærðum og gerðum og er það hið besta mál. Það er t.d. hægt að verða sér út um litlar síldartunnur eða nota gerjunartunnurnar sem fást hjá Brew.is og Ámunni.

Götóttur pottur blasir hér við

Til að brugga í poka þarftu meskipoka. Ýmsar útfærslur eru til af þessu en við mælum með nælon- eða polyester efni sem er nógu gisið til að hleypa vatni í gegn en ekki þannig að kornagnirnar fari með. Plastefnin endast betur og minni líkur eru á að þau skilji eitthvað við sig út í bruggið. Við keyptum 100% nælon gardínuefni í Rúmfatalagernum og 1,5m langa reim í Twill, Skeifunni. Síðan fékk ég kærustuna (SWMBO) til að sauma pokan saman, en uppskrift af honum mun koma inn á síðuna von bráðar.

Uppkuðlaður meskipoki tilbúinn í slaginn

Þegar þú ert búinn að sjóða til virtinn muntu vilja koma honum yfir í gerjunarílát á þægilegan máta. Til þess þarf suðuílátið þitt krana, en Brew.is selur mjög fína krana, bæði ryðfrítt stál og plast. Aftur mæli ég með ryðfría stálinu og eins og áður sagði þarf að bora gat í pottinn fyrir krananum. Nauðsynlegt er að þétta kranan vel en ró og sílíkonpakkning fylgir yfirleitt með. Fyrir þá einföldustu dugar líka að hella beint yfir í gerjunarílátið, en slíkt getur verið vandasamt og slæmt fyrir bakið.

Krani, ró, sílíkonpakkning, skinna, kranaendi og bjór!

Rafmagnið

Til að meskja og sjóða þarftu að hita gumsið. Það gerirðu með hitaelementi. Hitaelement er smá málmbeygla sem hitnar þegar rafmagni er hleypt í gegnum hana. Hrafnkell hjá Brew.is selur mjög öflugt og gott hitaelement sem hentar fullkomnlega fyrir verkefnið. Um er að ræða 3500 watta element sem krefst 16 ampera rafstraums. Aðgengi að slíkum straum má finna í flestum íbúðum, hjá mér leynist slík innstunga í þvottahúsinu. Það er líka hægt að redda sér með kraftminni elementum sem tengja má í hvaða innstungu sem er, en þá þarf fleiri til að hita nógu hratt. Margir leysa þetta með því að kaupa sér þrjá hraðsuðukatla, plokka elementin úr þeim, rigga saman rafrás og koma þeim fyrir í meskingar- og gerjunarílátinu. Hafa þarf þó í huga að það þarfnast fleiri gata. Elementið þarf svo að þétta með og sílíkonhring.

Hitaelementið kyrfilega fast inni í pottinum auk kranaendans.

Annað sem flækist við 16 ampera rafstraum er að þykkari víra þarf til að bera kraftinn, helst 1,5mm2 í þvermáli. Þannig víra, ásamt klóm sem passa á þá, má finna í ýmsum verslunum, en ég keypti mitt í Byko.

Kæling

Eftir suðuna skiptir miklu máli að kæla virtinn hratt og er hentugasta aðferðin til þess notkun kælispírals. Fyrir kælispíral er gott að kaupa 10-12 metra langt koparrör og rúlla því saman í spíral. Kælispírallinn virkar þannig að annar endirinn er tengdur um vatnsslöngu við kaldavatnskrana og hinn endinn liggur svo út eða í niðurfall. Þannig flæðir ískalt vatn í gegnum nýsoðin virtinn og dregur varmann hratt og örugglega úr honum, en kopar er mjög góður hitaleiðari. Koparrörið getur maður keypt í ýmsum efnissölum, en Efnissala GE Jóhannssonar varð fyrir valinu hjá mér. Vatnsslönguna (og hosuklemmurnar til að festa hana við koparrörið) færðu í verslunum á borð við Byko og Húsasmiðjuna.

Upprúllaður kælispírall með áfestum garðslöngum.

Gerjunarílát

Þegar virturinn er orðinn nægilega kaldur er kominn tími til að setja hann í sótthreinsað ílát þar sem gerið getur fengið að hefjast handa við töfra sína. Gerjunarílátið þarf aftur nokkra höfuðeiginleika: Það þarf að vera þrifvænt, vera algerlega þétt þegar það er lokað og það þarf að rúma það magn af bjór sem þú hyggst brugga. Aftur er úr mörgu að velja, allt frá eik yfir í gler og þaðan í plast. Einfaldast er að byrja með klassískar 30 lítra plasttunnur og er hægt að kaupa þær m.a. hjá Brew.is eða Ámunni. Ég keypti mér tvær þar sem að við átöppunina er gott að hafa aðra fötu til að blanda sykurlausninni við. Vatnslás verður að vera með, en hann er nauðsynlegur til að tryggja að ekkert loft komist inn í gerjunarföturnar og jafnframt hleypa þeim koltvísýringi sem verður til við gerjunina út og forða þannig öllu dæminu frá yfirþrýstingi og subbulegum sprengingum.

Gerjunarílát með þægilegum lítraskala og vatnslausum vatnslás.

Töppun

Þegar gerið hefur klárað vinnu sína og umbreytt sykruðum virtinum í áfengan bjór er kominn tími til að flytja bjórinn í eitthvað ílát. Flestir velja flöskur þar sem þokkalega auðvelt er að verða sér út um þær, þrífa þær og endurnýta. Aðrir velja kúta. Ef þú getur komist yfir kút og allt sem þarf til þess mæli ég hiklaust með því, en þar sem það er sjaldan það sem byrjendur fara út í sleppi ég kútum úr þessari grein. Flöskurnar færðu út í næstu Vínbúð, en það besta við að kaupa flöskur þaðan er að þeim fylgir yfirleitt bjór. Veldu alltaf brúnar flöskur; gæði bjórsins endast betur í þeim.

Það eru ýmsar leiðir til að koma bjórnum úr gerjunarílátinu yfir í flöskur en sú einfaldasta er með autosyfon (hævert) og töppunarsprota. Autosyfon er í raun bara einföld dæla sem kemur af stað flæði bjórsins og svo stillirðu töppunaraðstöðuna þannig að þyngdaraflið sér um restina. Töppunarsproti er stutt plaströr með lokunarapparati á endanum sem hleypir bara bjórnum í gegn ef hann snertir botn flösku. Autosyfoninn, töppunarsprotan og slöngu á millii þeirra færðu í Ámuni eða Brew.is. Passaðu þig á því að kaupa örugglega rétta stærðir, en okkur þykir þægilegast að nota „litlu“ útgáfuna af bæði autosyfon og töppunarsrpota.

Hér má sjá autosyfon og töppunarsprota.

Þegar bjórinn er kominn í flöskurnar þarftu að koma nýjum tappa á þær. Til þess er gott að nota tappalokara, en þannig græjur er hægt að kaupa hjá Brew.is og Ámunni og koma yfirleitt í tveimur mismunandi gerðum. Annarsvegar tappatöng sem dugar vel fyrir flestar flöskur og svo aðeins dýrari borðfastan tappalokara sem virkar á allar. Flestar bjórflöskur sem þú sankar að þér verða með „stóran“ stút á hálsinum, sem tappatöngin dugar á, og er það því ódýrari kosturinn.

Mælitæki

Að lokum er rétt að minnast á þau mælitæki sem þörf er á í bruggferlinu. Þar má helst nefna hitamæli og eðlisþyngdarvog. Hitamælir er í raun nauðsynilegur til að stilla réttan meskingarhita. Það er hægt að fá ýmsar gerðir af misdýrum og misgóðum hitamælum hjá Brew.is, Ámunni og annarsstaðar. Yfirleitt gildir sú regla að þú færð það sem þú borgar fyrir, en fyrir fátækan byrjanda dugar alveg að kaupa ódýrasta mælinn. Hraðari og nákvæmari mælar eru betri; en dýrari.

Eðlisþyngdarvog er ekki bráðnauðsynleg fyrir bruggferlið en hún getur hjálpað þér að læra af mistökum þínum í meskingu og öðru. Flestir nota eðlisþyngdarvog til að áætla áfengismagn bjórsins og er hún því oftast kölluð „áfengisvog“ eða „sykurvog“ í verslunum, en þær er hægt að kaupa bæði hjá Brew.is og Ámunni. Ég vil strax taka fram að enginn munur er á þessum tvemur hugtökum í praktík en yfirleitt eru þær til með mismunandi skala eftir því hverskyns brugg á að mæla. Með eðlisþyngdarvoginni er gott að kaupa mjótt mæliglas.

Hvað svo?

Næsta skref er að setja saman græjurnar, þrífa þær rækilega og undirbúa fyrsta bruggdaginn. Til hamingju! Þú ert einu skrefi nær því að smakka fyrsta bjórinn sem er algerlega „þinn“.


Ertu með spurningu, athugasemd eða eitthvað sem þú vilt koma á framfæri varðandi greinina? Endilega skildu eftir skilaboð hér að neðan!