Okkur Helga hefur lengi dreymt um að eiga saman eikartunnu sem við gætum notað til að umbreyta bjórunum okkar í himneska drykki með mjúkri áferð og hlýjum keim eikarinnar. Konur myndu elska okkur og karlmenn myndu vilja vera eins og við. Lífið yrði loksins fullkomnað. Allir sem hafa smakkað eikarlegin bjór geta verið sammála um það að ef vel heppnast til er niðurstaðan hreinn unaður.

Einn daginn ákváðum við að nóg væri komið af draumórum og við þyrftum að slá til. Við fórum að vafra netið og veltum vöngum yfir þessu. Draumurinn er að fá tunnu í hentugri stærð fyrir tvo heimabruggara sem hefur verið notuð til að þroska einhvern hágæða áfengan drykk. Helst langar okkur í viskítunnu. Vandamálið með notaðar viskítunnur er tvíþætt: Annarsvegar er viskí yfirleitt látið liggja í hundruða lítra tunnum og hinsvegar er heljarinnar eftirspurn eftir þessu og lítið af fljótlegum lausnum. Annar möguleiki er að kaupa nýjar minni tunnur og fundum við nokkra álitlega seljendur á Ebay en okkur leist þó ekki alveg nógu vel á þann möguleika. En þá datt okkur snilldar ráð í hug; árið 2012 tók nefnilega viskíbrennsla til starfa hér á Íslandi undir nafninu Eimverk. Við settum okkur í samband við brennsluna og var eikarþyrstum heimabruggurunum umsvifalaust boðið í heimsókn.

Flóki young malt og Vor gin

Eimverk býr til viskí, gin og ákavíti úr 100% íslensku byggi. Ferlinu svipar til bjórgerðar en þó frábrugðið að mörgu leiti. Mesking er gerð með ómöltuðu korni og til að ná sykrunum almennilega úr bygginu bæta þau hjá Eimverki við ensímum, sem jafnframt eru verulega hitaþolin. Þau þurfa að nota tvöfalt meira af byggi en í venjulega viskílögn þar sem íslenska byggið gefur lítin sykur af sér, en fá þá auka bragðkarakter frá bygginu í bónus. Auk þess er allt heila klabbið, byggagnir og virturinn, fært saman yfir í gerjun sem er svo látin gossa harkalega í örfáa daga. Þetta er gert til að fá enn meira af bragði úr bygginu sjálfu.

Hér er íslenskt byggið meskjað með viðbættum ensímum.

Aðal galdrarnir gerast svo í eimingunum þar sem gambrinn er brenndur í tvemur skrefum yfir í „grunnviskí“. Við fengum að smakka smá dreitil af þessum tæra drykk og hann bragðast furðu ljúft með áberandi karakter af íslenska bygginu.

Helgi dáist af fallegum eimingarapparötum

Út frá „grunnviskíinu“ geta þau hjá Eimverk farið nokkrar leiðir. Bæta má við einiberjum (og öðru kryddi) til að búa til gin eða kúmeni (og öðru kryddi) svo til verði ákavíti. Svo má flytja spírann á tunnur, en þær gefa honum bæði bragð og lit þannig til verður viskí. Flóki er nú fáanlegur sem „young malt“ og hefur hann þá verið á tunnu í eitt ár. Árið 2016 verður svo fyrsta uppskeran af 3 ára „single malt“ Flóka tilbúinn.

Eimverk notar bæði stórar og smáar eikartunnur

Við komum hins vegar til að sjá tunnur og það fengum við líka. Upp um alla veggi liggja stórar eikartunnur þar sem Flóki þroskast og dafnar. Fyrir minni tilraunalagnir og sérpantanir notar Eimverk svo mun meðfærilegri 5L tunnur. Þumalputtareglan með eikartunnur er sú að þeim mun minni sem tunnan er þeim mun hraðar fæst karakterinn úr henni. Eins og er áttu þau hjá Eimverk ekki til notaðar tunnur í hentugri stærð en til að við færum ekki tómhentir heim fengum við prufur af svokölluðum eikarspírölum. Með einum slíkum spíral má ná fullum eikarkarakter í 3 gallon (um 11,4L) á einungis 6 vikum. Þórir brosti eyrnanna á milli þar sem hann setti í heljarinar barleywine fyrir fjórum vikum síðan og er akkúrat kominn tími til að flytja það á secondary. Það er því tilvalið að setja hluta lagnarinnar á spíral og sjá hver útkoman verður. Til að herma betur eftir notaðri viskítunnu ákváðum við að leggja spíralinn fyrst í smá viskíglögg og fengum við til þess smá dreitil af Flóka. Eikarspírallinn fær að baðast í viskí í nokkra daga áður en hann er settur ofan í barleywine-ið í seinni hluta gerjunar. Þórir getur varla beðið og þið munuð eflaust sjá færslu um útkomuna hér.

Plasthólkur utan af eðlisþyngdarvog virtist henta fullkomnlega...

Þótt við höfum ekki fundið draumatunnuna hjá Eimverk fengum við frábæra hugmynd í staðin: Hrafnkell hjá Brew.is verslar hluta af vörunum sínum frá Brouwland en þeir selja ónotaðar eikartunnur. Við kíktum við á bakaleiðinni og er stefnan að fjárfesta í einni slíkri 20L tunnu í gegnum hann, Þó það sé ekki notuð tunna er það betra en ekki neitt og hlökkum við til að prófa okkur áfram með hana.

Viðbót (9/6/2015):

Eftir að eikarspírallinn hafði legið á viskí í „snilldar“ plasthólknum mínum í nokkra daga og tími var kominn til að setja þetta út í annað stig gerjunar hjá honum Bessa mínum komst ég (Þórir) að því að viður eykst í rúmmáli þegar hann blotnar. Þetta lærði ég náttúrulega í grunnskóla en tókst einhvernvegin að gleyma. Að lokum neyddist ég til að klippa í sundur plasthólkinn og því get ég ekki mælt með þeirri aðferð lengur. Mér dettur eitthvað sniðugara í hug næst. En í öðrum fréttum þá kom barleywine-ið bara skrambi vel út!

Þessi Bessi fær að dúsa lengi á flöskum fyrir fyrstu smökkun.

Ertu með spurningu, athugasemd eða eitthvað sem þú vilt koma á framfæri varðandi greinina? Endilega skildu eftir skilaboð hér að neðan!