Nú þegar ég er farinn að þora að bjóða fólki upp á bjórinn minn er ekki annað hægt en að hafa bjór á krana þegar maður heldur upp á afmælið sitt. Það er skemmtileg tilbreyting fyrir gestina og slær iðurlega í gegn en það sem mér finnst þó langsamlega best við þetta er að geta dælt út á stuttum tíma heilli uppskrift og fengið athugasemdir strax. Vissulega eru margir sem eru tilbúnir til að hæla manni og klappa á öxlina sama hvað, en það eru þó alltaf nokkrir á staðnum sem maður getur fengið heiðarlegt svar frá. Nú um daginn ákváðum við Sigrún að halda saman upp á afmælin okkar í heljarinnar teiti. Ég sá þetta sem frábært tækifæri til að brjóta heilan yfir uppskriftum og dusta rykið af brugggræjunum eftir sumarið - en þær hafa fengið óþægilega langa hvíld vegna framkvæmda hérna heima. Ekki var flókið að velja bjórstílana sem ég vildi bjóða upp á. Annars vegar hef ég verið að velta fyrir mér porterum og er að prófa til uppskriftir og hins vegar er orðin einhver hefð að Heiðar fljóti alltaf með hvert sem ég fer.

Þetta var bara skrambi skemmtilegt!

Porterinn

Ég bruggaði minn fyrsta porter um daginn. Um var að ræða hunangsporter hvers uppskrift ég fann í bókinni Home Brew Beer sem við Helgi fengum til yfirferðar fyrir Forlagið útgáfu með tilliti til þýðingar. Niðurstaðan var hinn ágætasti porter, léttur og aðgengilegur þrátt fyrir dökkan litinn. Helsti galli uppskrifatrinnar var þó að hunangið er sett út í suðu of snemma sem sýður burt öll helstu bragðefni þess og því skein það engan vegin í gegn. Ég ákvað þó frekar að sleppa hunanginu alveg og stefni að því að vinna mig út frá grunni þessarar uppskriftar yfir í einhvern porter sem ég er sáttur með. Eftir aðlögun að því korni og humlum sem í boði voru breyttist uppskriftin smávegis en grunnurinn er þó sá sami. Eins og sjá má er maltsamsetningin fremur flókin, eitthvað sem mig grunar að sé óþarfi, en ég vildi ekki hrófla of mikið til í henni í einu.

Hér má sjá uppskriftina fyrir porterinn

Bruggdagur gekk með eindæmum vel. Ég byrjaði með 22L í pottinum og hitti glaður á 67°C við mash-in. Það stóð í „einangraða“ pottinum mínum (lesist „lok og handklæði utan um“) í 60 mínútur og endaði í 64°C. Ég tosaði svo upp pokann þannig hann stæði ekki á elementinu og hitaði meskinguna upp í 75°C fyrir mash-out. Þegar því var náð lét ég pokann síga aftur ofan í pottinn og blandaði korninu vel við vatnið aftur. Mikið vildi ég óska þess að ég væri búinn að útbúa falskan botn….

Ég tryggi að pokinn sígi ekki ofan á heitt elementið með því að binda hann við handfangið.

Eftir 10 mínútur í þeim hita gerði ég enn eina tilraunina til að skola kornið með því að tosa pokann smám saman upp og hella svo yfir kornið 6L af 75°C heitu vatni. Við skulum segja að það hafi gengið ágætlega; tvær hendur að halda uppi pokanum og hella brennheitu vatni úr tvemur aðskildum pottum. Því miður á ég ekki mynd af þessari hetjulegu tilraun minni. Að því búnu kveikti ég á hitaelementinu svo suðan gæti byrjað og setti strax út í fyrsta humlaskammtinn. Mig langaði að prófa „first-wort hopping“ aðferðina hér þar sem humlar eru settir út í áður en suða byrjar. Margir segja að þetta gefi mýkri beiskju, þó að nýleg tilraun hjá brülosophy mönnunum sýndi engan mun annan en þægindi hvað varðar ferlið. Suðan var lítið mál og í kjölfar hennar kældi ég virtinn með kælispíralnum niður í 15°C á tæpu korteri. Guð blessi ískalda grunnvatnið okkar hér á Klakanum. Því næst tók ég OG mælingu (1,052) og sullaði svo virtinum yfir í gerjunarílát, hristi vel og hellti uppbleyttu gerinu út í.

Búinn að gerjast, en hvað er þetta?

Porterinn fékk svo að liggja við stofuhita í þrjár vikur þangað til komið var að ákútun og átöppun. Þegar ég opnaði tunnuna blasti við mér ekkert sérstaklega fögur sjón. Yfir bjórnum lá þunnt slímkennt lag með nokkrum loftbólum sem virtust harðnaðar. Ég ákvað þó ekki að fara að gráta strax og kláraði verkið. Helmingurinn fór á lítinn 10L kornelíusarkút og restin á flöskur. FG mældist 1,014. Bragðið af ferskum bjórnum var engan vegin slæmt og lyktin þokkalega yndæl. Því hlaut sýkingin ekki að vera búin að eyðileggja hann alveg og þar sem ég sá fram á að hann yrði allur kláraður á innan við 5 dögum úr kútnum ákvað ég að segja #YOLO og lét kyrrt við liggja.

Eftir fjóra daga á 30 psi í útigeymslunni var hann orðinn vel kolsýrður og bragðaðist alveg hreint dásamlega. Létt ristaðir tónar og lítið body bakvið það gerði hann að fullkomnun session porter; ákkúrat það sem ég stefndi að. Hausinn var ansi fallegur að lit og áferð og hélst þokkalega vel. Hann fékk vinnunafnið Ári fyrir afmælið og fór einstaklega vel ofan í gestina; þó mestu bjórunnendurnir vildu hafa aðeisn meira „punch“ á bak við hann. Ég mun eflaust breyta uppskriftinni næst þegar ég geri hann; einfalda kornlistann og jafnvel stefna að aðeins meira body, en þrátt fyrir sýkinguna er ég þokkalega stoltur af þessum bjór. Ég hlakka svo til að smakka hann af flöskunum eftir nokkrar vikur.

Ætli hann muni ekki breyta um nafn líka næst...

Breiðar?

Þegar komið var að næsta uppgötvaði ég að engin nenna var til staðar fyrir enn eina Heiðars bruggunina, eins dásamlegt compo og léttur maltgrunnur með Citra og Mosaic er. Ég var nýlega byrjaður á að vinna að Humlar 101 greininni okkar og því á bóla kafi í mismunandi humlabragði. Sú fluga kom því í haus minn að prófa að skipta út amerísku humlunum með ávaxtakeiminn sinn fyrir eitthvað kryddað og blómalegt - jafnvel sjá hvað gerist ef maður missir sig í aðalshumlunum frá evrópu. Eða bara einhverja klassíska breska humla. Satt best að segja var ég ekki alveg viss. Að lokum stóð ég fyrir framan humlahilluna hjá Brew.is, rétti út hendi í blindni og greip um Tettnanger poka. Stundum verður maður bara að prófa sig áfram út í loftið. Til viðbótar átti ég svo smá Magnum heima sem beiskjuhumla og að lokum þorði ég ekki öðru en að setja smá Citra út í líka.

Ég verð að játa að það er gaman að stilla upp humlunum fyrirfram

Annað sem mig dauðlangaði að prufa var að hrófla aðeins við maltprófílnum hans Heiðars með því að skipta út stórum hluta grunnmaltsins fyrir München malt. München er á börmum þess að skilgreinast sem grunnmalt sjálft þar sem það hefur rétt svo nógu mikið af ensímum til að umbreyta allri sterkju sinni í einfaldari sykrur á klukkustund. Það er þurrkað við aðeins hærra hitastig en hin hefðbundnu grunnmölt og gefa því bragð og lykt af nýbökuðu brauði eða kexi.

Eftir þessar breytingar er tæpast hægt að kalla bjórinn amerískt fölöl og því ákvað ég líka að prófa nýtt ger. S-04 reyndist heppilegt val, enda ekkert svakalegur munur á því og US-05 sem notað var í Heiðar. Hvað ætti ég þá að kalla þessa samsuðu? Einhverskonar breskt fölöl? Sleppur þetta sem bitter? Breskur Heiðar? Breiðar?

Sumir segja að maður egi ekki að hreyfa við of mörgum breytum í einu og það er vissulega rétt...en þúst...það má líka alveg flippa stundum.

Uppskriftin endaði því svona

Aftur gekk bruggdagurinn þokkalega snuðrulaust fyri sig. Byrjaði nú með 24L í pottinum og hrundi inn á 67°C í mash-in. Við tók 60 mínútna meskig sem endaði í 64°C. Ekki slæmt. Á meðan meskingu stóð tók ég lokið af 3x með jöfnu millibili og hrærði smávegis til í korninu, þetta er ábending sem ég sá hjá brulosophy og langaði að prufa. Síðan tók ég 75°C mashout á sama hátt og porterinn í 10 mínútur en ákvað svo að létta mér lífið og skola bara með 4L vatns, sem passar í einn pott. Eftir skolun og kreistingu á pokanum kveikti ég á hitaelementinu og henti FWH humlunum mínum út í. Ég laumaðist í eðlisþyngdarmælingu fyrir suðu sem reyndist vera 1,050. Suðan stóð í 60 mínútur og er hægt að sjá humlaviðbæturnar að ofan. Suðan gekk vandræðalaust fyrir sig og að henni lokinni var ég með 22L af virt með OG 1,058; töluvert sterkara en ég gerði ráð fyrir. Mig grunar að ég þurfi að uppfæra nýtnina mína í BeerSmith, ekki getur þetta bara stafað af hræringunni í meskingu?

Ansi myndarlegur þrátt fyrir ungan aldur.

Þar sem ég er alltaf svakalega tímanlega í öllu sem ég geri fékk Breiðar bara að sitja á gerinu í 16 daga. Það virtist þó hafa dugað vel til og reyndist S-04 einstaklega duglegt með FG upp á 1,010. Þegar ég opnaði gerjunarílátið varð ég ekki var við neinn smjörkeim heldur einunigs dásamlega lykt af nýbökuðu brauði. Ekki er ég nógu gáfaður eða reyndur til að vita hvort það komi frá korninu eða gerinu - lyktin var alla vegana góð. Breiðar húrraðist svo allur ofan í stóran kornelíusar kút nema nokkrir dropar sem komust ofan í fjórar flöskur til síðara smakks. Áður e kúturinn fór í útigeymsluna laumaði ég litlum humlapoka út í hann með 30g af Tettnanger og sat hann svo á 30 psi í tvo sólarhringa. Bragðið var alls ekki slæmt. Milt kornbragð með smávegis kex- og brauðnótum en ég fann ekki nógu mikið fyrir humlunum sem olli því að jafnvægi hallaði svolítið í maltáttina. Hann fór vel ofan í veislugestina og baðaði ég mig í hrósum allt kvöldið.

Ég er sannfærður um að þessi sé kominn til að vera en í framtíðinni mun ég missa mig enn meira í humlunum.

Hvað lærðum við?

Það eru nokkrir hlutir sem ég vill sérstaklega nefna eftir þessa tilraunastarfsemi. Í fyrsta lagi mun ég hiklaust endurvekja í mér hreinlætismörðinn eftir þetta fyrsta sýkingaráfall og hlífa engum áhöldum sem koma nálægt virtnum við joðofóri eða suðu. Ég er ekkert viss um að FWH hafi haft nokkur áhrif á bragðeginleika þessara bjóra, þó báðir hafa vissulega verið lasuir við harða beiskju. Ég mun þó hiklaust nota FWH áfram þar sem það einfaldar örlítið ferlið og minnkar líkur á að það sjóði upp úr eftir fyrstu humlaviðbót. Jafnframt mæli ég hiklaust með því að hræra létt í meskingu tvisvar til þrisvar sinnum þar sem það hækkaði nýtnina þó nokkuð og olli ekki of miklu hitatapi. Síðasti lærdómurinn af þessu er að blogga aldrei oftar um tvo bjóra í einu; þetta er orðið allt of langt.


Ertu með spurningu, athugasemd eða eitthvað sem þú vilt koma á framfæri varðandi greinina? Endilega skildu eftir skilaboð hér að neðan!