Um helgina var brúðkaup vinkonu minnar (eða í raun vinkonu kærustunnar minnar, en ég vil meina að við séum samt líka vinir). Hún bað mig um að brugga bjór fyrir veisluna, sem og ég gerði! Ég bruggaði alls 80 lítra af brúðkaupsbjór. Allt sama uppskriftin, svona meira og minna. Ljós lagerbjór, lítil beiskja, lítil humlaangan... þ.e. bjór sem allir ættu að geta drukkið. Bjórinn fékk hið mjög svo væmna nafn Ást og Hamingja. Enda fannst mér það lýsandi yfir samband þeirra væntanlegu brúðhjóna (núverandi núna reyndar, þau sögðu bæði já).

dagny
Dagný kærastan mín að smakka bjórinn

Ást og Hamingja Brúðkaupsbjór - Uppskrift fyrir 21 lítra

Original Gravity = 1.050
IBU = 28,8
ABV = 5%

2,72kg/60% Pale Malt (Weyermann)
1,36kg/30% Munich 1 (Weyermann)
0,45kg/10% CaraPils (Weyermann)

60 mín - 20g First Gold (8% AA) - 20,2 IBU
15 mín - 10g First Gold (8% AA) - 5 IBU
10 mín - 20g Hallertauer Mittelfrueh (4% AA) - 3,7 IBU

2 pakkar af S-23 þurrgeri

Gerjað við 11-12°C í 2-3 vikur. 16°C í 2 daga eftir það (diacetyl hvíld). Síðan 3°C (cold crash) þangað til þú setur á kút/flöskur.

bjórmiði
Að ganni mínu bjó ég til miða fyrir bjórinn

Af þeim umsögnum að dæma, sem ég fékk að heyra, heppnaðist bjórinn þrusuvel. Allir sem ég talaði við voru hæstánægðir með hann og fékk ég mörg tilboð til að brugga fyrir fólk. Það gerði mig mjög glaðan. Það sakaði heldur ekki að geta dælt bjórnum með stæl. Ég fékk nefnilega lánaða dælu úr brugghúsinu, sem kælir bjórinn á leiðinni í glasið. Þannig gat ég stillt upp bjórkútunum undir borð og haft dæluna uppi á borði. Svo var sjálfsafgreiðsla á bjórnum fyrir gesti.

Eigið mat á bjórnum

Ég er sáttur með útlitið, en samt örlítið hissa á því hversu dökkur hann er. Ég bjóst við að hann yrði alveg ljósgulur og fölur, en í staðinn er hann meira út í kopar. Eins og sést á myndunum er samt alls ekki hægt að segja að hann sé „dökkur“ bjór. Hann er því aðgengilegur fyrir non-bjórnörda að því leiti til. Í lyktina er hægt að nema malt og örlítið krydd og blóm frá humlunum, samt frekar lítið að gerast í lyktinni. Bragðið er að mestu leiti maltkeimur með hæfilegri beiskju. Þessi beiskjutala (28,8 IBU) virðist virka vel í þessum bjór. Áferðin er meðalþétt, alls ekki þunnur. Rennur ljúft niður og mig langar strax í annan sopa. Í heildina er ég mjög sáttur með þennan bjór. Hugsa að ég bruggi þennan aftur. Það væri líka gaman að prófa sig áfram með exótískar humlategundir í staðinn fyrir First Gold.

dæla
Dælan sem ég fékk að láni úr brugghúsinu
kútar
Dúkurinn faldi gömlu kútana mína (svona næstum því)
menn að fá sér
Þyrstur gestur fær sér bjór

Þetta var mjög skemmtilegt og heppnaðist betur en ég gat vonað. Ég var smá stressaður yfir því hvort fólk myndi líka bjórinn, en stressið breyttist í stolt strax og fyrstu gestirnir voru búnir að fá sér. Ef þú ert að hugsa um að brugga fyrir veislu eða partý er um að gera. Þetta er góð leið til að mæla hversu góður bjórinn þinn er og bætir sjálfstraustið.


Ertu með spurningu, athugasemd eða eitthvað sem þú vilt koma á framfæri varðandi greinina? Endilega skildu eftir skilaboð hér að neðan!