Mig langaði aðeins að skrifa grein um það hvernig hægt er að brugga í mjög litlu plássi. Ég rekst nefnilega reglulega á fólk sem annað hvort langar að byrja að brugga eða hefur verið að brugga í stærri aðstöðu en það hefur yfir að ráða í augnablikinu (og hefur þess vegna hætt sökum „plássleysis“). Nú hef ég ávallt búið í litlum kjallaraíbúðum eftir að ég flutti út úr foreldrahúsi. Samt sem áður hefur plássið aldrei nokkurn tímann hrjáð mig hvað bruggið varðar. Þess vegna langar mig að sýna lesendum okkar hvernig hægt er að rækta þetta áhugamál, alveg sama hversu litla aðstöðu þú hefur!

Aðeins um mína aðstöðu fyrst:

Þegar ég fyrst byrjaði að brugga bjó ég í íbúð frá Stúdentagörðum á Lindargötunni ásamt félaga mínum. Þetta var um það bil 55 fermetra íbúð ef allt er talið. Þetta var samt sem áður líklega rúmbesta aðstaða sem ég hef haft. Þarna hafði ég rúmgott eldhús auk sér geymslu, sem fékk að sjálfsögðu nafnið „brugg-geymslan“. Næsta íbúð sem ég flutti í, ásamt kærustunni minni, var 47 fermetrar að stærð. Minnsta eldhús sem ég hafði nokkurn tímann séð á ævi minni. Engin „brugg-geymsla“ heldur. Þú getur skoðað þráð á Fágunarspjallinu um þessa aðstöðu hér. Núna bý ég í 50 fermetra íbúð með örlítið stærra eldhúsi en í fyrri íbúð, sem er þó einnig forstofa líka, já og gangur. Þar er ég kominn með tvær „brugg-geymslur“, eftir að ég náði yfirráðum yfir bæði þvottahúsinu (2-3 fermetrar) og útigeymslunni (aðrir 2-3 fermetrar). Og ég er bara sáttur með ástandið eins og það er!

Lindargatan
Pokabrugg í eldhúsinu á Lindargötu (55 fermetra íbúð). Síldartunna notuð í verkið.
Skeggjagata_1
Eldhúsið á Skeggjagötu (47 fermetra íbúð).
Skeggjagata_3
16 lítra pottur á hellunni í Skeggjagötunni. 15 metra kælispírall notaður til kælingar á virtinum. Já, það gat sullast smá, stundum...
Managata_1
Flöskudagur á Mánagötunni. Þá tek ég bara yfir stofuna eins og ég eigi staðinn!

Hvað hentar þér og þinni aðstöðu?

Hér eftir minnist ég á nokkrar leiðir til að brugga í litlu plássi:

Dvergbrugg

Þetta er einfaldasta og augljósasta lausnin. Ef þú ert með lítið pláss, bruggaðu minna magn í einu með minni græjum. Ef þú átt meskipoka geturðu notað hann hvort sem það er fyrir 20L eða 5L. Hann virkar alltaf eins. Þú getur svo meskjað í pottinum sem þú sýður í eða í gerjunarfötu.

Ef þú átt ekki nógu stóran pott, eða aðstöðu til að nota stóran pott, geturðu til dæmis bruggað minna en í hefðbundinni lögn. Þú þarft ekki að gera 20 lítra lagnir þó svo allir aðrir séu að gera það. Hægt er að fá gerjunarílát í ýmsum stærðum minni en 20-30L. Áman, Vínkjallarinn og Brew.is selja öll gerjunarílát sem eru á bilinu 3.8-11,5 lítra stór og stundum 15 lítra. Auðvelt er að finna potta sem passa vel fyrir t.d. 10L brugganir. Að brugga bjór á hellunni í eldhúsinu getur verið mun fljótlegri og þægilegri aðferð miðað við vesenið sem fer stundum í stærri lagnir.

Ef þér finnst of lítið að gera 5 eða 10 lítra í einu vil ég spyrja þig: af hverju hefurðu áhuga á því að brugga? Er það eingöngu til að fá ódýrt áfengi? Því ef svo er, skaltu bara hætta að lesa núna og sleppa þessu. Þetta áhugamál er ekki fyrir þig!

Ef þú bruggar 10L í einu lærir þú á tvöföldum hraða miðað við að brugga 20L í einu. Og fjórfalt ef þú gerir 5L lagnir! Því í hvert sinn sem þú bruggar lærirðu eitthvað nýtt. Hvort sem þú nærð að gera fleiri bjórstíla, fleiri aðferðir, nota fleiri hráefni eða hvort þú nærð að fullkomna tiltekna uppskrift á skemmri tíma en þú myndir annars gera. Þú safnar reynslu mun hraðar en þeir sem gera stærri lagnir, í það minnsta ef þú ert að brugga oftar en þú myndir annars gera. Sem er líklegt að gerist, því uppskeran klárast mun hraðar því minni sem hún er.

dvergbrugg_1
Bruggað í litla eldhúsinu mínu á Mánagötunni
dvergbrugg_3
Meskjað í 16 lítra potti. Nota svo sama pott til að sjóða og enda með 10 lítra.

Að sjóða sterkari virt

Þú getur gert eins og ég gerði á Skeggjagötunni (47 fermetra íbúðin). Þar notaði ég 16 lítra pott á hellunni til þess að búa til 20 lítra af bjór. Hvernig gerði ég það?

Athuga: Sumir segja að humlanýtnin í suðunni sé verri því sterkari (hærri eðlisþyngd) sem virturinn er. Persónulega tók ég ekki eftir þessu hjá mér, en að mínu mati best er að prófa sig áfram í þessum efnum. Ef bjórinn endar ekki nægilega beiskur fyrir þinn smekk, prófaðu að auka humla (eða IBU tölu í uppskrift) um t.d. 10% næst og sjá bara til.

Extrakt brugg

Þetta er önnur lausn fyrir þá sem eru með lítið pláss. Oft þarf ekki einu sinni að sjóða extraktið, heldur aðeins að gerilsneyða (í kringum 70°C) og leysa nógu vel upp í vatni áður en það er kælt niður aftur. Hægt er að búa til vel drekkanlegan bjór með extrakti. Það krefst þó þess að þú sjóðir humla út í og notar almennileg ger (sem þú ferð vel með líka), þ.e. ekki einfaldlega að nota „kitt“ og alls ekki sykur.

Því miður er lítið úrval af extrakti á Íslandi og það sem fæst hér er mun dýrara en samsvarandi magn af korni. Því mæli ég frekar með öðrum aðferðum við að brugga í litlu plássi. 

Annað en bjór: Mjöður, Cider og fleira

Þú þarft ekki endilega að brugga bjór. Hefurðu einhvern tímann smakkað góðan mjöð eða cider? Þá veistu hvað þessir drykkir geta verið góðir, ef þeir eru gerðir almennilega. Því miður er úrvalið af hráefnum í þessa drykki mjög takmarkað á Íslandi og auk þess mjög dýrt. Hins vegar getur afraksturinn verið virði þess í endann.

Vegna kostnaðar hentar fullkomlega að gera litlar lagnir í einu. Til að mynda er það eina sem þú þarft fyrir mjöð eða cider einfaldlega gerjunarílát. Þannig séð er engin þörf á því að sjóða eða hita (gerilsneyða) hunang eða eplasafa. Þú getur einfaldlega blandað hráefnunum saman í gerjunarílátinu. Að þessu leiti til gæti ekki verið einfaldara að gera cider eða mjöð. Hins vegar þarf ávallt að hafa í huga atriði eins og gernæringu, súrefni, hitastig í gerjun (eins og venjulega) til þess að tryggja góða lokaafurð. Og auðvitað að hafa hreinlætið á hreinu (pun intended).


Ertu með spurningu, athugasemd eða eitthvað sem þú vilt koma á framfæri varðandi greinina? Endilega skildu eftir skilaboð hér að neðan!