2. þáttur - Heimsókn í Ölvisholt: Brugggræjur

Það er hægt að fara margar leiðir til að brugga bjór heima. Það er hægt að byrja með frumstæðar og ódýrar græjur og uppfæra hægt og rólega upp með tímanum eða skella sér beint í braumeisterinn. Það skiptir hins vegar ekki máli hvað græjurnar kosta eða hversu flóknar hitastýringar eru notaðar í meskingu. Þú getur spreðað eins litlu eða miklu og þú vilt í græjurnar, þú endar alltaf með bjór! Það sem skiptir máli er að velja þær græjur sem henta þér og þínum aðstæðum!

Það eru samt nokkrir hlutir sem þú nauðsynlega þarft að eiga til að geta búið til bjór:

Það sem er svo skemmtilegt við heimabruggun, og heimabruggara, er að hver heimabruggari treður sínar eigin slóðir í þessum efnum. Engin ein leið er réttust eða best.

Skoðum nánar hvernig græjur Elvar, Þórir og Helgi eru með (sem sjást í myndbandinu).

Elvar

Elvar hitar vatnið sitt í ryðfríum potti á gashellu. Það er enginn krani eða element á pottinum hans. Hann meskir síðan kornið í kæliboxi sem útbúið er með krana og klósettbarka. Kæliboxið heldur hita ótrúlega vel og venjulega missir hann aðeins um 1-2°C á klukkutíma (nema hann sé úti í kulda). Eftir meskingu lætur hann virtinn renna út um kranann, í gegnum klósettbarkann (sem virkar sem filter). Hann safnar virtinum sem rennur út og bætir aftur í kæliboxið, þ.e. lætur renna í hringrás, þar til vökvinn kemur út tær. Þetta er gert til þess að kornið myndi sjálft filter. Þegar virturinn er orðinn tær er honum leyft að renna í suðupottinn (sama pott og vatnið var hitað í). Síðan er virturinn soðinn á gashellunni. Virturinn er síðan kældur með kælispíral. Einfaldara gæti þetta varla verið!

Þórir

Þórir hitar vatnið sitt í ryðfríum potti (sama týpa og Elvar) með 3500W elementi og krana. Þegar réttur hiti er kominn á vatnið leggur hann meskipoka ofan í pottinn og síðan kornið ofan í hann (sjáðu grein um pokabrugg). Potturinn heldur hitanum frekar illa (án frekari einangrunar) og stundum getur hitinn lækkað mikið. Þá er pokanum lyft og hitað undir til að ná réttum hita. Í lok meskingar er pokinn einfaldlega hífður upp og látinn dreypa ofan í pottinn eða í gerjunarfötu. Soðið er í sama potti og kælt með kælispíral. Þetta er örlítið flóknara að útfæra heldur en græjurnar hans Elvars, en kosturinn er að rafmagnið kostar minna og hægt að brugga inni öruggur.

Helgi

Helgi hitar vatnið sitt í gamalli þvottavél frá Rafha. Hún er útbúin nýju 3500W elementi, auk 3000W innbyggðu elementi (gamla elementið). Hann notar PID hitastýringu til að ná og halda réttum hita í meskingu. Hann notar meskipoka sem liggur á fölskum botni, sem forðar honum frá bruna (ef hann myndi snerta elementið), ásamt dælu sem dælir í hringrás í meskingu og stuðlar þannig að jöfnum hita. Eftir meskingu er meskipokinn hífður upp og látinn dreypa ofan í pottinn eða gerjunarílát. Kælt er með kælispíral með hringdælingu í gangi. Þetta er töluvert flóknara en flestir eru með, en ekki svo erfitt að koma sér upp engu að síður (fyrir utan að redda gamalli Rafha þvottavél kannski). Þetta er svokallað RIMS kerfi (Recirculating Infusion Mash System).

Þetta eru aðeins þær leiðir sem við höfum farið í útfærslu á brugggræjunum. Vonandi hjálpar þér þetta við að útfæra þína eigin aðferð. Svo er hægt fara mismunandi leiðir í gerjunargræjum líka. Sjáðu t.d. BrewPi stýringuna hans Helga. Það er samt efni í heilan annan þátt (sem kemur síðar).