
Veðrið lofaði nú ekki góðu þegar ég lagði af stað með kútana mína tvo í átt að Klambratúni um kl 14 þann 22. ágúst síðastliðinn en ég var staðráðinn í því að láta það ekki skipta máli. Svo virtist sem fjöldi fólks hafi verið á sama meiði því litli krókurinn okkar hjá leikvellinum var smekkfullur af bruggurum og bjóráhugamönnum.

Fyrir tilefnið hafði ég tekið til hliðar tvo bjóra og sett á kút. Annarsvegar var það þriðja lögnin af honum Heiðari Pale Ale, verðandi húsbjór mínum, og hinsvegar léttur hungangsporter sem fékk nafnið Gústi. Sá síðarnefndi er lagaður samkvæmt uppskrift sem ég fann í bókinni Home Brew Beer, en við Helgi vorum beðnir að lesa hana yfir fyrir Forlagið, sem er að velta fyrir sér að þýða bókina og gefa út hér á klakanum. Um er að ræða léttan porter sem fær viðbót 500g af hunangs í lok suðunnar. Ég var orðinn spenntur að finna hunangskeyminn í blandi við léttristaða tóna bjórsins. Niðurstaðan var mjög mildur og þægilegur porter, þó hann mætti vel hafa meira body á bakvið sig. Það var þó álit manna og kvenna að lítið færi fyrir hunanginu.

Þrátt fyrir einhverja svakalegustu rigningardembu sem ég hef lent í skemmti fólk sér konunglega og naut alls þess sem í boði var. Ég notaði tækifærið og tók viðtöl við nokkra af þeim fjölmörgu bruggurum sem mættu með kúta og klippti það saman í stuttan þátt.