Hugmynd

Hugmyndin kemur úr bókinni Sacred and Herbal Healing Beers: The Secrets of Ancient Fermentations eftir Stephen Harrod Buhner. Markmiðið er að líkja eftir mjöð eins og hann var hugsanlega gerður fyrr á öldum. Höfundur bókarinnar ímyndar sér að fólk hafi sett heil býflugnabú í pott, ásamt öllu sem því fylgir, og úr því gert mjöð. Í þessari uppskrift er ekki gengið svo langt að þú þurfir að fara út og finna býflugnabú, heldur er reynt að miða við það helsta sem úr því kemur sem nýtist í mjöðinn.

Nú hef ég ekki prófað að henda heilu býflugnabúi í pott, né ferðast 10.000 ár aftur í tímann og fundið mjaðargerðarmeistara sem það gerði. En ég get sagt að þetta er líklega besti mjöður sem ég hef gert! Svo hefur hann eingöngu fengið frábæra dóma hjá öllum þeim sem hann hafa smakkað.

Öll hráefni utan vatns komin saman í eina mynd.

Tölur

 

Lítrar í gerjun 4 L
Áfengismagn ca. 10-12%
Suðutími 30 mín
OG 1.100-1.130
FG 1.015-1.030

Hunang

Notaðu uppáhalds villiblómahunangið þitt. Ég get mælt með Villiblómahunanginu frá Sollu, það hefur komið einstaklega vel út í þennan mjöð. Fyrir 4 lítra lögn þarftu um það bil 1,35-1,80 kg af hunangi eftir því hversu háa eðlisþyngd þú vilt byrja með í upphafi. Persónulega finnst mér betra að hafa þennan mjöð nokkuð sterkann og einnig með góða afgangssætu, og það þýðir að ég reyni að byrja með eðlisþyngd í kringum 1.120-1.130.

Ger

Ég hef notað brauðger, ensk ölger og vínger í þennan mjöð. Allt hefur komið vel út! Valið á gerinu hér (eins og í öllum mjöð) ræðst að miklu leyti af því hversu áfengur mjöðurinn á að vera og hver afgangssætan á að vera (án þess að þú þurfir að bæta í sætuna eftir á). Notaðu því þitt uppáhaldsger sem skilar því sem þú vilt ná fram. Ef þig vantar hugmyndir get ég mælt með:

Sérstök hráefni

Þrennt sem þarf er:

Þessi hráefni eru algerlega nauðsynleg fyrir þennan mjöð. Þau eru samt rándýr, en á endanum eru þau vel þess virði að kaupa. Allt þetta fæst t.d. í Heilsuhúsinu, en gæti fengist annars staðar (og mögulega á lægra verði).

Aðferð

Blandaðu saman hunangi og nægu vatni til að leysa hunangið upp í. Um það bil 2-3 lítrar ættu að nægja (miðað við 4L uppskrift), passaðu að nota ekki of mikið vatn. Það er alltaf hægt að bæta við vatni eftir á, en erfitt að taka vatn burt (nema með því að sjóða lengur). Hunangsblandan er hituð upp að suðu og soðin í 30 mínútur. Við kælingu er sérstöku hráefnunum bætt við. Af fenginni reynslu mæli ég með því að bæta þeim EKKI við út í pottinn sem þú notaðir til að sjóða í, heldur frekar að skella þeim út í gerjunarílátið og hella heitri hunangsblöndunni yfir og sjá til þess að það blandist vel (hræra eða hrista). Ástæðan er sú að býþéttirinn vill límast í botninn eða í hliðarnar á pottinum, og það er nánast ómögulegt að ná honum aftur (ég á ennþá trekt með blettum af býþétti sem neita að fara). 

Athugasemdir

Eins og með alla miði er nauðsynlegt að sinna gerinu vel. Bleyttu upp í því áður en þú hellir því út í. Bættu við nauðsynlegri næringu (í nokkrum skrefum) og sjáðu til þess að leysa kolsýruna úr lausn í gerjun. Þessi mjöður er góður bæði með og án kolsýru.